top of page

FÉLAGSLÖG TUDDA

 


1. Grein
Félagið heitir Golfklúbburinn Tuddi, skammstafað GOT.  Heimilisfang klúbbsins er heimilisfang formanns hverju sinni. Heimavöllur klúbbsins er Úthlíðarvöllur, 801 Selfoss og klúbbhús. Klúbburinn er aðili að Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK), G.S.Í. og Í.S.Í.  Megintilgangur og markmið klúbbsins er að iðka golfíþróttina, glæða og viðhalda áhuga á annari félagsstarfsemi er tengist íþróttinni.

2. Grein.
Við golfleik skal fara eftir golfreglum R&A Rules Limited og The United States Golf Association  eins og þær eru á hverjum tíma.  Stjórnin setur sérreglur eftir því sem þurfa þykir.  Sérhver félagi er skyldugur að fara eftir þeim reglum sem stjórnin setur um leikinn og umferð og umgengni á golfvelli og í klúbbhúsi.
Stjórnin skal sjá til þess að leik-, umgengnis-, og siðareglur liggi að jafnaði frammi í klúbbhúsinu.  Breytingar sem kunna að verða á þessum reglum skal hún auglýsa.

3. Grein. 
Aðild að Golfklúbbnum Tudda er öllum opin sem hafa áhuga á að styðja tilgang félagsins og óska aðildar með skriflegri umsókn. Einungis ytri aðstæður, svo sem þjálfaraaðstæður og aðstaða til golfleiks sem klúbburinn getur boðið upp á hverju sinni, geta sett takmarkanir á þátttöku. Æski fleiri félagsaðildar en unnt er að verða við skal setja umsækjendur á biðskrá. Stjórn skal setja og birta reglur um biðskrána.  Aukaaðild að klúbbnum geta fengið ungmenni 17 ára og yngri. Aukaaðild fylgir takmarkaður réttur til leiks golfvöllum félagsins samkvæmt reglum sem stjórnin setur. Stjórn skal ákveða hámarksfjölda aukafélaga miðað við þá aðstöðu sem félagið getur boðið hverju sinni.

4. Grein.
Aðalfundur ákveður árgjald næsta starfsárs að fenginni tillögu stjórnar. Erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hér um stundarsakir greiða sömu árgjöld.  Erlendir ríkisborgarar bera sömu réttindi og skyldur og aðrir meðlimir klúbbsins, fyrir utan að þeir hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundum og almennum félagsfundum.  Farandverðlaun skulu geymd í klúbbhúsinu.  Stjórnin ákveður vallar-/flatarfjald utanfélagsmanna.
Stjórnin getur á aðalfundi borið fram og leitað samþykkis tillagna um sérstök aukaframlög klúbbfélaga.

5. Grein.  
Aðalfundur ákveður árgjöld eftir ákveðnum reglum.  Gjalddagi er 1. mars ár hvert, en eindagi 1. apríl.
Stjórnin getur ákveðið álag á félagsgjöld sé ekki staðið í skilum með þau.  Þeir sem ekki hafa greitt eða samið um árgjald fyrir eindaga hafa fyrirgert rétti sínum sem félagar klúbbsins og fá meðal annars ekki að taka þátt í keppni fyrr en gjaldið hefur verið greitt eða samið um greiðslu þess.  Úrsögn úr félaginu er bundin við áramót, enda berist hún skriflega til ritara fyrir lok desembersmánaðar.

 

6. Grein.
Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Formann félagsins sem og aðra stjórnarmenn skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Fyrir utan formann er kosið í: varaformann, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnandur.
Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félagsins og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila. Stjórnarmenn má endurkjósa.
Tveim vikum fyrir aðalfund skal stjórnin skipa í uppstillinganefnd til þess að gera tillögu á aðalfundi um kosningu stjórnar og varamanna í stjórn. A.m.k. einn þeirra skal hafa verið í stjórn eða varastjórn.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skipar stjórnin í nefndir sem starfa á vegum félagsins sbr. 8. grein og tilnefnir í nefndir og ráð sem það á aðild að.

7.  Grein.
Stjórnin ákveður sjálf starfstilhögun sína.  Hún getur ráðið sér launaða aðstoð og fær bein útgjöld greidd úr félagssjóði en vinnur sjálf án launa.  Hún kemur fram fyrir hönd klúbbsins í fullu umboði hans í öllum málum sem hann varðar, þó þarf samþykki félagsfundar til stórra ákvarðana sem hafa mikil fjárútlát í för með sér.  Stjórnin getur tilnefnt heiðursfélaga ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda leiti hún fundarsamþykktar fyrir því.  Stjórnin skal rækta samband við klúbbfélaga og kynna þeim mikilsverð mál er varða starfsemi klúbbsins á félagsfundum eða opnum stjórnarfundum.


8.  Grein.
Á vegum stjórnarinnar skulu að jafnaði starfa eftirtaldar nefndir: 
1) Mótanefnd
2) Skemmtinefnd
3) Aganefnd og forgjafarnefnd
4) Kvennanefnd
5) Afreksmannanefnd
6) Unglinganefnd

9.  Grein.
Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum klúbbsins.  Hann skal halda í janúar ár hvert.  Á öðrum tíma ársins getur stjórnin boðað til almenns félagsfundar ef henni þykir ástæða til eða ef  50% borgandi klúbbfélaga óska þess skriflega með rökstuðningi.  Slíkan fund skal halda innan þriggja vikna frá móttöku slíkrar beiðni.
Aðalfund og aðra félagsfundi skal auglýsa með viku fyrirvara.  Í fundarboði skal tilgreina dagskrá.  Tillögur til lagabreytinga eða starfstilhögun skulu hafa borist a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund.

 

10.  Grein.
Reiknisár klúbbsins er frá 1. janúar til og með 31. desember ár hvert.  Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu lagðir fyrir aðalfund til samþykktar.

11.  Grein.
Þessi eru störf reglulegs aðalfundar:
1.      Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári.
2.      Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar. 
Fjárhagsáætlun næsta árs kynnt.
3.      Umræður og atkvæðagreiðsla um tillögur skv. 9. grein.
4.      Kosning stjórnar.
5.      Kosnir tveir skoðunarmenn.
6.      Önnur mál.
 

12.  Grein.
Aðalfundur er löglegur og ályktunarhæfur um öll málefni sé löglega til hans boðað.  Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum.  Atkvæðisrétt hafa þeir félagar sem náð hafa 16 ára aldri.  Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til að samþykkja lagabreytingar.  Aðalfundur skal kjósa fundarstjóra og ritara eftir tiiögu stjórnar.  Í fundarlok skal lesa upp fundargerðina og bera hana upp til samþykktar.  Fundargerðin skal síðan undirrituð af fundarstjóra, fundarritara og viðstöddum stjórnarmönnum og skoðast hún sem rétt sönnunargögn um ákvarðanir fundarins.


13.  Grein.
Sérstakur fundur þarf að ákveða hvort klúbburinn hættir starfi.  Til að slík ákvörðun teljist lögmæt þurfa tveir þriðju félaga að vera á fundi og tveir þriðju fundarmanna að samþykkja tillögu þess efnis.  Sé þátttaka ekki næg má boða til nýs fundar innan þriggja vikna og er hann ályktunarhæfur um þetta mál sé hann löglega boðaður, enda þótt fyrrgreindri þátttöku verði ekki náð. Ef eignir eru inn í félaginu við slit þess munu þær renna til Golfsambands Íslands kt. 5801692799.

14.  Grein.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á aðalfundi klúbbsins 22. desember 2008

bottom of page