TUDDAFRÉTTIR
GOT býður forseta sinn til láns
Í ljósi magnaðar umræðu um embætti forseta Íslands ákvað stjórn Golfklúbbsins Tudda að halda opinn félagsfund. Eftir mjög mánefnanlegan fund var einróma niðurstaða félagsmanna að bjóða fram krafta forseta GOT til að taka við af Ólafi Ragnari Grímssyni þegar að hans tímabili lýkur.
Bjarni forseti hefur setið sem forseti GOT í nær 9 ár. Um hann hefur ríkt mikil sátt og eining, hvort sem er í venjulegum forsetastörfum hérlendis eða á erlendri grundu þar sem honum hefur ávallt verið vel tekið. Félagið telur að ekki séu neinir frambærilegri valmöguleikar í stöðunni enda leitun að traustari manni með jafn mikla framtíðarsýn, jafnrétti og réttsýni að leiðarljósi. Sameiningarkraftur Bjarna er einstakur og ljóst að það væri mikil eigingirni hjá félagsmönnum að halda honum í þeim verkefnum sem hann sinnir núna.
Ljóst er að starf forseta GOT er það viðamikið að ekki verður mögulegt að sinna þessum tveimur embættum samtímis. Það er því með miklum trega en þó stolti sem við félagarnir í Golfklúbbnum Tudda erum til í að lána forseta vorn til a.m.k. 4 ára í embætti forseta Íslands.
Félagsfundur GOT, 6. janúar 2016.
Aðalfundur GOT 2014
Aðalfundur GOT var haldinn í Laugardalshöll þriðjudaginn 14. janúar 2015
Fundur hófst kl. 20:00 og voru meirihluta félagsmanna mættir. Fundarstjóri var kjörinn Þórður Ingason og fundarritari var kjörinn Hjörtur Fr. Vigfússon. Fundarstjóri þakkaði traustið og lýsti því yfir að hann hefði gengið úr skugga um að löglega hefði verið til fundarins boðað og teldist því aðalfundur GOT 2015 löglegur og ályktunarhæfur.
Störf reglulegs aðalfundar voru samkvæmt áður auglýstri dagskrá.
Kosið var í stjórn fyrir árið 2015 og niðurstaðan var þessi:
Formaður: Bjarni Magnússon
Varaformaður: Bogi Pétursson
Féhirðir: Magnús Már Þórðarson
Ritari: Marteinn Þorkelsson
Meðstjórnandi: Óli Öder Magnússon
Meðstjórnandi: Hilmar Hólmgeirsson
Meðstjórnandi: Júlíus Hallgrímsson
SÉRSTAKUR STARFSHÓPUR SKILAR AF SÉR
Á félagsfundi GOT þann 26. janúar sl. var samþykkt að setja saman starfshóp sem fengi það verkefni að skoða framkvæmd meistaramótsins og leggja fram tillögur að framtíðarsýn fyrir mót félagsins til næstu þrjátíu ára. Hópurinn var skipaður 6 einstaklingum sem komu úr ólíkum hornum félagstarfsins og með mismunandi félagslegan bakgrunn, svo besta heildarmyndin fengist.
Niðurstöðurnar liggja nú fyrir og koma eflaust mörgum félagsmanninum og jafnvel öðrum í golfhreyfingunni á óvart en í stuttu máli þá henta vellir á höfuðborgasvæðinu ekki til mótahalds félagsins. Það er því mat nefndarinnar að halda meistaramótin á erlendri grundu 4 ár í röð og svo hérlendis fimmta hvert ár. Þá skal það haldið út á landi en óvist er í hvorum hópnum Mosfellsbær liggur. Skipuð var önnur nefnd til að fara yfir þau mál. Skýrslu nefndarinn má sjá í heild sinni hér!
Herrakvöldið nálgast!
Herrakvöld GOT 2016 verður haldið í Laugardalshöll föstudaginn 26. febrúar n.k. Takmarkaður sætafjöldi er í boði svo nú er um að gera að hafa hraðar hendur. Gestir síðasta árs ásamt velunnurum félagsins hafa forgang í miðasölu en almenn miðasala hefst 5. janúar 2016 - Fyrstir koma, fyrstir fá!
Húsið opnar að þessu sinni með heiðursmóttöku kl. 18:00 en borðhald og skemmtun hefst kl. 19:00
Veisluhlaðborðið sem er orðið landsfrægt verður að sjálfsögðu á sínum stað!
Fjölmargir listamenn koma og leika listir sínar eða syngja!
Aðgöngumiði er á aðeins kr. 8.900,-
Miðapantanir á got@got.is eða í gegn um góðan Tudda!
Slóð á Facebookgrúppu þar sem núverandi og fyrrverandi gestir, geta skoðað er: https://www.facebook.com/groups/1383053148665423/
Ekta danskur Jólafrokost að hætti GOT
Eins stærsta stund hvers Tudda er hin árlega jólagleði. Þá taka dönskuættuðu meistarakokkar klúbbsins sig til og leggja á borð að dönskum sið. Og þá svigna borðin. Þarna kemur máltækið "að éta út félagsgjöldin" enda féhirðir í óða önn að ganga frá ársreikningnum fyrir aðalfund.
Þarna er einnig mikið sungið og gripið í bingóspjöldin. En myndatökur eru bannaðar. Gleðileg jól!
Sveitakeppni GSÍ 2015
Sveitakeppni GSÍ 2014 fór fram eins til stóð og sendi GOT tvær sveitir til leiks, bæði Valsliðið og Úrvalsliðið. Að þessu sinni var mótið haldið af Golfklúbbnum Þverá Hellishólum og voru móttökur og aðstæður allar eins og best verður á kosið. Til að gera langa sögu stutta þá kom Valsliðið, sá og sigraði og munu GOT-arar senda vaska sveit(ir) til leiks í 4. deild í ágúst 2015 en þá mun sveitakeppnin fara fram í Bolungarvík. Heimamenn þar hafa þegar hafið undirbúning fyrir komu okkar enda föngulegur hópur manna á ferð sem létta mun lund bæjarbúa og hafa áhrif á hagtölur næsta árs.
Þess má geta að að með þessu sigri var GOT fyrsti golfkúbbur landsins (svo vitað sé) til að vinna sveitakeppni GSÍ í höggleik og Holukeppni sem er einstakt afrek sem líklega verður aldrei leikið eftir.
Klúbbmeistari GOT 2015
Klúbbmeistari og handhafi Græna Jakkans árið 2015 er enginn annars en Þorsteinn Hallgrímsson. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þorsteinn klæðist jakkanum en að þessu sinni náði hann honum til baka með frábærri spilamennsku. Að venju stakk meistari GOT sér til sunds í jakkanum sem er þó ótrúlega heillegur ennþá.